Á hliðarlínunni...

Fékk áskorun í dag um að setja rannsóknarritgerð mína og bekkjarsystur minnar hérna inn á bloggið, þetta væri eitthvað sem mörgum kæmi við og margir þyrftu að íhuga aðeins. Ég að sjálfsögðu spurði Klöru ritgerðarskólabekkjarsystur mína um þetta og hún veitt fullt leyfi, enda fengum við flott fyrir hana, eða svona 9.5Smile Ætla því að leyfa þeim sem nenna að lesa um hvernig foreldrar eiga  EKKI að haga sér á leikjum barna sinna...

Njótið sem nennið...

kv. Badda

 Margir hafa lent í því að mæta á íþróttaleiki barna sinna og þurft að hlusta á foreldra ausa svívirðingum yfir dómara, þjálfara og jafnvel börnin í hita leiksins. Af hverju ætli þessir foreldrar hagi sér á þennan hátt? Getur það verið að ástæðan sé brostnir draumar þeirra sjálfra um að verða stjörnur í íþróttum eða er um að ræða óheyrilegar kröfur um að barnið þeirra verið næsta stjarna Íslands? Ekki er ólíklegt að samhengi sé þarna á milli því marga hefur dreymt um að verða íþróttahetjur en ekki orðið það og lifa sig þá í gegnum börn sín með óheyrilegum kröfum. Að okkar mati er forkastanlegt að foreldrar láti svona; mikil hætta er á því að þetta brjóti börnin niður og að sögn Hermanns Kristins Hreinssonar, þjálfara á Eskifirði, hefur það komið fyrir að börn hætti íþróttaiðkun eftir svona hegðun hjá foreldrum. Segist hann vita þess nokkur dæmi að börn hafi hætt íþróttaiðkun vegna hjálparkokka á hliðarlínunni.           

Því miður gerist það allt of oft að foreldrar skipti sér svo mikið af íþróttaiðkun barna sinna og annarra að börnin viti varla sitt rjúkandi ráð og taki ákvarðanir sem þau hefðu sennilega aldrei tekið án afskiptanna. Við undirritaðar höfum báðar margsinnis orðið vitni að óskemmtilegum atvikum á hliðarlínunni og keyrir stundum um þverbak. Sjálfsagt væri hægt að fylla heilu bækurnar af atvikum sem við, eða aðilar okkur tengdir, höfum þurft að horfa upp á og er ekki ástæða til að fara yfir margar slíkar sögur. Ætlum við að láta nægja að segja frá atviki, sem stjúpsonur Klöru varð vitni að á pæjumóti á Siglufirði sl. sumar, en þá tók faðir nokkur upp á því að taka sér stöðu við mark andstæðinganna og trufla stúlkuna sem stóð í markinu – m.a. með því að hreinlega segja henni að verja ekki skot andstæðinganna. Við þessa skipun kom svo mikið fát á vesalings stúlkuna að hún gerði ekki tilraun til að verja mark sitt og leiddi þessi afskiptasemi nær til hatrammra slagsmála á milli þessa föður og föður markmannsins (Ívar Sæmundsson 2007).        

 Íþróttafélögin láta sitt ekki eftir liggja hvað viðkemur því að halda foreldrum í skefjum og hafa ýmis félög séð ástæðu til þess að setja texta inn á vefsíður sínar þar sem hvatt er til góðrar hegðunar á hliðarlínunni. Stefán Ólafsson, íþróttafrömuður hjá KA á Akureyri, áréttar í pistli á vefsíðu félagsins að oft séu mjög skýr tilmæli til foreldra á íþróttamótum um hvar þeir eigi að halda sig á meðan á leik stendur. Segir hann þessi tilmæli ekki sprottin úr engu, þar sem talið er að hróp þeirra geti valdið truflun í leik (Stefán Ólafsson). Þess vegna er það óskiljanlegt þegar foreldrar hegða sér svona og má segja að krafan um sigur taki öll völd.

Halldór er 14 ára gamall sonur Bjarneyjar og æfir hann knattspyrnu í sinni heimabyggð. Við spurðum hann að því hvernig honum myndi líða ef móðir hans tæki upp á því að hrópa og kalla á leikmenn og starfsmenn á leikjum hans. Svaraði hann því til að líklegast myndi honum líða mjög illa; hann myndi skammast sín, sjálfsálitið myndi örugglega minnka og hann væri ekki viss um hvort hann færi aftur á æfingar – hvað þá hvort hann myndi spila fleiri leiki.  Halldór á nokkra góða félaga í fótboltanum sem hann segir að eigi foreldra „sem láta oft eins og vitleysingar á hliðarlínunni“ og hann segist oft vorkenna þessum félögum sínum (Halldór Bjarneyjarsson, 2007).

Hermann Kristinn Hreinsson er þjálfari Halldórs hjá Austra á Eskifirði. Aðspurður segir hann frá því að hann hafi séð mörg ljót atvik í þjálfun sinni. „Eitt sinn var ég að þjálfa lið í 3. flokki í Reykjavík. Drengur í liðinu var að keppa og var faðir hans með mikil læti á hliðarlínunni. Drengurinn svaraði föður sínum og fljótlega voru feðgarnir komnir í hár saman – urðu lætin svo mikil að drengurinn gat engan veginn einbeitt sér að leiknum sjálfum. Í lok leiks var hann orðinn svo miður sín að hann gekk grátandi af velli og kom aldrei aftur á fótboltaæfingar. Þarna stuðlaði faðir á hliðarlínunni að því að mjög efnilegur leikmaður hætti alveg í boltanum,“ segir Hermann og bætir við að þegar börn upplifi svona atvik geri þau að hans mati oft uppreisn gegn foreldrum sínum. Segir Hermann að mjög sorglegt sé að horfa upp á slíkt. „Oft gera foreldrar sér enga grein fyrir hvað þau eru að segja eða gera. Þeir halda oft að þeir séu að hvetja liðið sitt þegar þeir eru í raun eingöngu að hrópa á barnið sitt,“ segir hann og tekur jafnframt fram að ef þjálfarar séu jákvæðir þá myndist jákvæð stemming hjá foreldrum, en neikvæðir þjálfarar smiti foreldra af neikvæðninni. Hugsjónin um íþróttir sem forvörn sé því fokin út í veður og vind þegar foreldrar láti svona, þau geri meiri skaða við að láta svona heldur en hitt.

Á vefsíðu KA kemur fram að margir þjálfarar segi að börn hafi komið til þeirra og beðið þá um að tala við foreldra sína og hreinlega að biðja þá um að „halda kjafti“ því þau verði bara fyrir truflunum frá hrópum þeirra og köllum. Oft heyrist á vellinum „skjóttu“ frá foreldrum þegar besta ákvörðunin sé að gefa á samherja. Margir foreldrar vilji nefnilega að sitt barn skori mörkin. Það sé hins vegar auðvitað hlutverk þjálfarans að stýra liðinu og kalla skipanir inn á völlinn, en foreldrar eigi að hafa það hlutverk með höndum að hvetja börnin áfram og hrósa þá alltaf liðinu í heild. Fram kemur í þessum vefpistli Stefáns að líklega stuðli þessi köll foreldranna ekki að öðru en að trufla börnin. Þau eigi nóg með að halda boltanum og koma honum á samherja án þess að verða fyrir áreiti af hliðarlínunni. Stefán kemur líka með athyglisverða samlíkingu þegar hann bendir á að með því að skerast á þennan hátt í ákvarðanatöku og sköpun hjá barninu, gætu þeir allt eins skorist í leikinn þegar börnin væru að taka próf í skólanum; foreldrarnir myndu þá mæta og taka prófin fyrir þau í stað þess að leyfa þeim að spreyta sig sjálfum (Stefán Ólafsson).

Stefán vitnar í grein sinni í áhugaverða rannsókn á því hve langan tíma tekur fyrir barn að bregðast við áreiti í leik. Fram kemur að það tekur þjálfara eða foreldri 1,1 sekúndu að sjá aðstæður og hugsa kallið. Kallið sjálft tekur 1,9 sekúndur, en tíminn sem það tekur barnið að heyra kallið og vinna úr upplýsingum er þrjár sekúndur. Það gefur auga leið að ef liðið hafa sex sekúndur frá því að aðstæðurnar komu upp og þar til leikmaður heyrði kallið hefur margt gerst í millitíðinni. Augnablikið er liðið og því ólíklegt að kallið skipti nokkru máli, nema þá að hafa neikvæð áhrif á leikmanninn (Stefán Ólafsson).

Það er skrítið að það þurfi að gefa út heilu og hálfu bæklingana til foreldra til að biðja þá um að haga sér eins og fullorðið fólk á hliðarlínunni. Þetta er engu að síður staðreynd og hafa m.a. KSÍ og KA gefið út leiðbeiningar sem sérstaklega eru ætlaðar foreldrum, og fjalla um hvernig þeir eigi að hegða sér. Það þætti nú saga til næsta bæjar ef það væru til samskonar bæklingar fyrir foreldra krakka sem spila á hljóðfæri, t.d. í skólahljómsveit. Það myndi sennilega skjóta skökku við ef foreldrar á hljómleikum hjá börnum sínum færu að hrópa og kalla á sviðið: „Spilaðu hraðar!“ eða „Spilaðu betur!“ Hætt er við að okkur þætti slík hegðun óásættanleg og að við myndum ekki sætta okkur við hana. Það er hins vegar engin ástæða til að sætta okkur fremur við svona hegðun á íþróttaleikjum.

Getur verið að leynist sannleikskorn í hugleiðingum okkar að um brostnar vonir foreldra geti stýrt svona hegðun? Á vefsíðu KSÍ er grein sem heitir „Hættumerki fyrir foreldra.“ Þar stendur að ótvírætt hættumerki sé þegar foreldrar upplifi sjálfa sig og sinn knattspyrnuferil í gegnum knattspyrnuiðkun barnsins síns. t.d. með því að ætla stráknum sínum að verða næsti Eiður Smári til þess að láta drauma sína rætast. Ekki er annað hægt en að taka undir heillaráðið sem birtist á vefsíðunni: „...leyfðu barninu að vera í knattspyrnu á sínum forsendum og hafa gaman“ (www.ksi.is). 

Það er okkar kenning að þessi þróun á fyrirbærinu „fótboltaforeldri“ sé tilkomin vegna þess hvernig þjóðfélagið hefur þróast; foreldrar vinna mikið og eru sífellt með samviskubit yfir því. Þeir vilja börnunum allt það besta og vilja styðja þau með ráðum og dáð í því sem börnin taka sér fyrir hendur. Jafnframt vilja þessir foreldrar vernda börnin fyrir því að verða undir í samkeppninni. Hin ríka þörf mæðra að vernda börnin sín virðist oft brjótast út á hliðarlínunni þar sem þær vernda afkvæmin með kjafti og klóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Huldabeib

Ótrúlega flott ritgerð!!!

Huldabeib, 7.11.2007 kl. 23:48

2 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Held samt að meginkvilli fótboltans liggi í þjálfun..............hvenær sérðu fótboltamann leggja jafn mikið á sig og krakkar í einstaklings Íþróttum........aldrei

Einar Bragi Bragason., 8.11.2007 kl. 00:14

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Bara að láta vita af mér.  Leaf Pile 

Ásdís Sigurðardóttir, 8.11.2007 kl. 00:38

4 Smámynd: Bjarney Hallgrímsdóttir

Ég er sammála þér Einar. að einhverju leyti.., sonurinn æfði líka skíði, sund og frjálsar... en þar voru foreldrarnir ekki alveg svona brjálaðir, þó svo það væru að vísu einn og einn foreldri sem EKKI  höguðu sér... og er hægt að yfirfæra þessa ritgerð að hluta yfir á þá foreldra líka... Mér finnst að vísu margir einstaklingar í fótboltanum leggja sig brjálað fram... skiptar skoðanir á því, eins og mörgu öðru...

kv. Badda

Bjarney Hallgrímsdóttir, 8.11.2007 kl. 07:28

5 Smámynd: Sóley Valdimarsdóttir

Gaman að sjá að þú hlýðir heheheheheh. Flott ritgerð hjá ykkur og gott að sem flestir taki sér þetta til umhugsunar.

Sóley Valdimarsdóttir, 8.11.2007 kl. 16:59

6 identicon

ORÐ Í  TÍMA TÖLUÐ

Oft hefur manni hreinlega langað til að segja sumum foreldrum að haldakjafti og/ eða að yfirgefa völlinn.

Flott ritgerð hjá ykkur og á hiklaust erindi víðar t.d í  dagblöð eða tímrit sem íþróttahreyfingin gefur út.

Guðrún Margrét Óladóttir (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 17:08

7 identicon

Flott ritgerð....gat samt ekki annað en glott útí annað við lesturinn..þetta er náttla pínu fyndið sko..svona sturlaðir foreldrar á hliðarlínunni...ég sá sjálfa mig alveg í anda þegar prinsinn verður kominn í boltann hlaupa inn á völlinn og draga einhvern annann krakka útaf á eyranu:-)..en ég er nú líka alltaf svo ýkt og með svo einkennilegann húmor;-)

Erna (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 23:44

8 identicon

Frábær ritgerð hjá ykkur og á mjög svo rétt á sér,

Hef oft velt því fyrir mér hvers vegna foreldrar taka sig ekki saman og mynda hvatningarhópa og syngja félagslögin í staðin fyrir að standa á hliðarlínunni og garga :)

Jói E (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband